20.9.2007 | 11:25
Grein um nýsköpunar- og frumkvöðlamennt í Blaðinu
Þann 18. september 2007 birtist grein í Blaðinu um nýsköpunar- og frukvöðlamenn eftir Einar Örn Jónsson sem við fengum leyfi til að birta hér á bloggsíðu FÍKNF.
"Nýsköpun og frumkvöðlamennt Nýsköpunar- og frumkvöðlamennt í skólumÝtir undir sköpunargáfuna
Þrátt fyrir að kveðið sé á um nýsköpunar- og frumkvöðlamennt í aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla er þessum þætti lítið sinnt hér á landi að mati Svanborgar R. Jónsdóttur, formanns Félags íslenskra kennara í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt (FÍKNF). Það er gott að þessar greinar séu komnar í námskrár bæði grunn- og framhaldsskóla en það fylgir þeim ekki svokölluð tímaúthlutun sem gæti verið ein skýringin á því að þeim er lítið sinnt hér á landi þrátt fyrir að þær sé í námsskrá, segir hún.Mér finnst að yfirvöld mættu fylgja námskránni betur eftir og kynna þessar námsgreinar fyrir skólafólki, almenningi og atvinnulífinu. Þær geta verið mjög öflugar ef þeim er vel sinnt.Önnur nálgun kennara
Svanborg segir að menntun kennara hér á landi sé lítil í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt en bendir jafnframt á að kennarar sem sinni þessum greinum hafi stofnað með sér félagsskap sem meðal annars hafi það að markmiði að bæta þekkingu á þessu sviði. Við höfum fengið styrki til að halda námskeið fyrir kennara og eins erum við að reyna að ýta svolítið við yfirvöldum um að marka aðeins skýrari stefnu, segir hún. Þeir kennarar sem á annað borð kynnast nýsköpunar- og frumkvöðlamennt fá yfirleitt mikinn áhuga á að efla þátt þeirra í skólastarfi enn frekar að sögn Svanborgar. Þetta býður kannski upp á svolítið aðra nálgun fyrir kennarann en í hefðbundinni kennslu. Það er meira byggt upp á sjálfstæði nemenda og að hlutverk kennarans sé frekar að aðstoða og styðja við þá en ekki að taka stjórnina eins og er kannski oft í öðrum greinum. Þá er mikið lagt upp úr frumkvæði nemenda og að þeir komi sjálfir með hugmyndir og finni út úr hlutunum, segir Svanborg.Sjá meiri tilgang
Að mati Svanborgar hefur nýsköpunar- og frumkvöðlanám mikið gildi til dæmis fyrir börn á grunnskólaaldri. Þarna er verið að ýta undir sköpunargáfuna en skólakerfið hefur verið svolítið gagnrýnt fyrir að drepa hana of mikið niður. Þarna fá þau líka tækifæri til að nýta svo margt sem þau eru að læra í skólanum, til dæmis listgreinar, stærðfræði, íslensku og smíði, segir hún. Auk þess að bjóða upp á samþættingu ólíkra námsgreina gerir nýsköpunar- og frumkvöðlamennt nemendum kleift að hagnýta ýmislegt sem fram að þessu hafa aðeins verið tölur eða orð á blaði. Þau sjá meiri tilgang í mörgu af því sem þau eru að læra, segir Svanborg sem kenndi sjálf þessa námsgrein í tíu ár. Hún segir að nemendur hafi almennt verið áhugasamir um námið og virkir. Mér fannst líka að fleiri nemendur nytu sín í þessu en almennt. Þeir nemendur sem eru á annað borð áhugasamir um nám eru það í flestum greinum en þarna voru fleiri sem nutu sín og fannst að þeir gætu gert eitthvað, segir Svanborg.Nýsköpunarkeppni grunnskóla
Ýmislegt gott hefur verið gert á sviði nýsköpunar- og frumkvöðlamenntunar hér á landi á undanförnum árum og er árleg Nýsköpunarkeppni grunnskólanna gott dæmi um það. Hún er haldin einu sinni á ári hér á landi sem er mjög gott því að til dæmis í Svíþjóð er hún haldin fjórða hvert ár. Keppnin hvetur marga til dáða og ég held að það hafi borist um 3000 hugmyndir núna, segir Svanborg en til samanburðar má benda á að þegar keppnin var fyrst haldin árið 1992 voru hugmyndirnar 75. Lokahóf keppninnar verður haldið í Grafarvogskirkju 30. september næstkomandi og þar mun Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, veita verðlaun fyrir bestu hugmyndirnar. Á föstudag verður aftur á móti haldin málstofa um nýsköpunar- og frumkvöðlamennt á Íslandi og í Danmörku í Kennaraháskóla Íslands. Þar mun Svanborg fjalla um stöðu mála hér á landi og kynna FÍKNF. Þá munu kennarar frá Kennaraháskólanum í Fredriksberg fjalla um stöðu nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar í danska skólakerfinu og stefnu stjórnvalda á því sviði.Málstofan fer fram í stofu E-304 og stendur frá kl. 14-16. Hún fer fram á ensku og er öllum opin."
Um bloggið
Félag íslenskra kennara í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt
Færsluflokkar
Tenglar
Heimasíður
http://www.inet.is/fiknf/
- JA Junior Achivement
- Snilliheimar Nýsköpunarsíða Jónu Bjarkar Jónsdóttur
- FORM Samtök hönnuða Form Ísland
- Nýsköpunarkeppni grunnskólanna NKG
- FÍKNF
- Impra á Nýsköpunarmiðstöð Impra á Nýsköpunarmiðstöð veitir upplýsingar og leiðsögn fyrir frumkvöðla og lítil fyrirtæki. Impra er annað kjarnasviða Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands með skrifstofur í Reykjavík, á Akureyri, Egilsstöðum, Húsavík, Höfn, Ísafirði, Sauðárkróki og Vestmannaeyjum.
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.